Vegna stjórnbótastagls

Vissulega er það vandasamt að standa í vegi fyrir breytingum. Sérstaklega vandasamt virðist vera að hafa varann á sér ef skoðanir mans eru metnar af umfangi eða tímalengd þeirri sem tekur að gera grein fyrir viðhorfum sínum frekar en að á málflutninginn sé hlýtt og menn velti innihaldi málflutningsins fyrir sér.

Þó ég hafi í Þinghúsið komið, þá gengur mér illa að hreykja mér af nokkru því sem þar hefur verið rætt. Því tel ég að ég geti án hlutdrægni sagt að mér þykir þeir fara með rangt mál sem halda því fram að Alþingi hafi heykst á því hlutverki sínu að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Stjórnarskráin hefur verið endurskoðuð og ýmsu í henni hefur verið breytt. Þó henni hafi ekki verið snúið á haus þá hefur henni verið breytt, um það verður ekki deilt. Stjórnaskrár draga upp mynd af því hver stjórnvöldin eru, hvað hlutverk þau hafa og hvernig þau koma fram við þá einstaklinga sem til samans mynda þjóðina.

Um nokkurt skeið hafa heyrst raddir sem notað hafa lýsingar í hærri kantinum til að finna skoðunum sínum rök, skoðunum á því að nú sé rétt að breyta um stjórnskipan í landinu. Nú sé rétt að breyta stjórnarskránni. Hafa þá jafnvel menn fundist sem talað hafa fyrir því að setja þurfi landinu svo gott sem nýja stjórnarskrá. Samt hafa menn ekki rætt um fjörbrot þjóðríkisins, nauðsyn þess að ræða um stofnun furstadæmis - sameinaðs eða sundraðs - eða alþýðulýðveldis ellegar sambandslýðveldis, mér hefði þótt áhugavert að heyra umræðu um slík atriði, eða hvort við skyldum velja konungsætt með aldar millibili. Þjóðríkið er enn nokkuð vinsælt form í ríkisrekstri, þó menn kunni að hafa mismunandi skoðanir á því.

Ég hefði viljað heyra fjörmiklar umræður þar sem einstaklingar, með lýðræðislegt umboð, myndu rökstyðja efnislega þörf fyrir breytingum á stjórnarskránni. Hverjar séu ástæður þeirrrar þarfar / þeirra þarfa? Hverju þurfi helst að breyta?

Telja menn þörf á því að rétta hlut löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldinu? Vilja menn jafna hlut einstaklinganna í almennum kosningum? Þykir mönnum eignarréttur ekki nægjanlega skýrt skilgreindur?
Vilja menn breyta um heiti á búinu? Hve miklum tíma þarf að breyta hve mörgum hlutum til þess eins að breyta þeim? Vilja menn fjarlægja völd frá fólkinu í þessu fámenna landi?

Væri ráð að skipta þinginu í tvær málsstofur, önnur stofan væri kjörin af landslista, þar sem landið væri jú eitt kjördæmi, sú málstofa væri skipuð meirihluta þingmanna. Hin málstofan væri samsett af þingmönnum sem væru jafnvel kjörnir af einmenningskjördæmum, til þess að tryggja að ólík sjónarmið kæmust í umræðuna.

Þeir sem nytu þess trausts þingsins til að setjast í ráðherraráðið þeir sætu ekki á þingi, hefðu þar ekki atkvæðisrétt, gætu vissulega staðið fyrir sínu máli og síns ráðuneytis en hefðu ekki atkvæðisrétt. Njóti þingmaður slíks trausts þá fái hann leyfi frá þingstörfum þann tíma sem hann njóti traustsins.
Forseti myndi ríkisstjórnir /ráðherraráð, enda sé forseti ætíð kjörinn með meirihluta atkvæða hvort sem til þess þurfi tvær eða jafnvel þrjár atkvæðagreiðslur. Forseti fari hvorttveggja fyrir landi og þjóð, stýri ríki og leiði þjóð? Eða vilja menn að forseti Alþingis sé kjörinn í almennri atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum og viðkomandi gegni þjóðhöfðingja embætti? Viljum við endurvekja titili lögsögumanns? Ellegar að vinsælasti einstaklingurinn í landinu í lok hvers árs myndi næstu ríkisstjórn að lokinni símakosningu?

Menn ljúka ekki umræðum um svona mál eins og ný stjórnarskrá er ef menn hafa ekki rætt málið. Umræða um nýja stjórnarskrá er varla hafin. Ef menn vilja ræða um nýja stjórnarskrá þá á þjóðin skilið að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar ræði efnislega um hverju þurfi að breyta og hversvegna. Rétt er að finna þeirri umræðu stað þegar fólk er ekki ringlað á hringli með hvað eina sem núverandi stjórnvöldum dettur í hug að hringla með.

Það finnst mér, sama hvað hverjum þeim sem ég kann að hafa hitt eða rætt við fram að þessu kunni að finnast.


mbl.is Samkomulag um að ljúka umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband