Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Brostnar vonir

Nú eru vonir forseta lýðveldisins brostnar. Forsetinn batt, á "málfundi" þriðjudagsins, vonir við að hér væri starfhæf ríkisstjórn, raunar batt forsetinn vonir við það að ný ríkisstjórn tæki við fyrir helgi. ég hefði haldið að hér gæti verið starfhæf stjórn ef oddur af oflæti væri brotinn. Ef þeim, sem eru heilir heilsu í þeirri stjórn sem baðst lausnar á mánudaginn var, rynni blóðið til skyldunnar og störfuðu saman fram á vor, kæmu sér saman um kjördag og einbeittu sér að aðgerðum fremur en ágreiningi.

Mér sýnist sem svo að það sem ekki mátti í Sjálfstæðisflokknum, megi í Samfylkingu. Utanríkisráðherra og formaður samfylkingarinnar lagðist gegn því að forusta ríkisstjórnarinnar yrði í höndum varaformanns Sjálfstæðisflokksins í forföllum formanns. Einhverra hluta vegna þótti formanni Samfylkingarinnar ekki rétt að varaformaður Samfylkingarinnar myndi leysa formanninn af hólmi meðan formaðurinn færi í veikindaorlof. Forusta ríkisstjórnarinnar mátti ekki verða bitbein í innanflokksdeilum, rétt er það en ekki var ástæða til að ætla að svo yrði í tilfelli Sjálfstæðisflokksins. En í Samfylkingunni virðist mega nota forsætisráðuneytið til að auka vegsemd ráðherra sem gæti komist nær formlegri forustu Samfylkingarinnar á framtíðar þingi þar sem allt bendir til að nýr varaformaður verði kjörinn.

Úr því að Ágústi Ólafi er, að því er virðist, ekki treyst fyrir forustu Samfylkingarinnar og Samfylkingin á þingi viðrist fylkja sér um Jóhönnu, hví getur Jóhanna ekki leyst Ingibjörgu af hólmi í utanríkisráðuneytinu meðan Ingibjörg nær fullri starfsorku. Þorgerður leysi Geir af hólmi í forsætisráðuneytinu. Aðrar mannabreytingar yrðu gerðar ef þörf þykir og þá væru þær ekki eins tvísýnar nú um stundir, þar sem nýjum viðskiptaráðherra og nýjum ráðherra í hverju því öðru ráðuneyti hvar ráðherra léti af störfum. Nýjum ráðherrum væri meiri stuðningur af því að hafa ráðherra sem eru vanir því að starfa saman sem slíkir að úrlausnarmálum þjóðarinnar. Nýir ráðherrar ættu þá líklega auðveldara með að átta sig á viðfangsefninu. Það á ekki að leggja mikla vinnu í svona formsatriði. Svona 10 manna ríkisstjórn myndi starfa fram að kosningum, þá þyrfti ekki að óttast lausatök þess sem er að setja sig inn í málin, rétt á meðan mest á ríður.


mbl.is Flokkstjórnarfundi frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

það sem við þurfum?

Það er e.t.v. spurning sem má spyrja, hvort nú sé tíminn til að standa í stappi um stjórnlagabætur, hvort ekki sé nær í að vinna ötullega að framkvæmd efnahagsumbótum. Láta sínar tilfinningar ekki bera sig ofurliði heldur halda fast um þjóðaröryggi. Þá er e.t.v. best að halda sig venjur, siði og lög. Vitanlega verður varla nokkrum nokkuð úr verki við svona aðstæður nema um það ríki sátt, sérstaklega við stjórnun mála er varða samfélagið allt. Stjórnleysi leysir engan vanda. hér þarf stjórn og persónulegur ágreiningur vegur minna en þjóðarhagur. Vel skal vanda það sem lengi skal standa, fumlaus vinnubrögð eru betri en fát, það sem gert verður þarf að gera að vel yfirlögðum ráðum. Hvernig málin þróast er óvíst.
Ýmsir hafa reynt að skemmta sér í dag, einn tilnefndi Kristinn H. Gunnarsson sem forsætisráðherra þjóðstjórnar. Svo hefur verið minnst á utanþingsstjórn, hverjir ætli njóti vinsælda til slíkra starfa?


mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagsins

Við Íslendingar þurfum einnig að láta okkur skiljast, að við megum ekki fremur en aðrar þjóðir ætla, að við getum til lengdar vænst mikils góðs af nokkurri þjóð, umfram það, sem er í réttu hlutfalli við þá þýðingu, sem við höfum fyrir hagsmuni hennar sjálfrar. Þetta er lögmál lífsins. Eftir því skulum við hegða okkur, m.a. vegna þess, að það er frumskilyrðið til að eignast þá vináttu og virðingu annarra þjóða, sem getur, þegar mest á ríður, verið verðmætari en nokkrir fjársjóðir.

Svo mælti sá landsfaðir okkar í áramótaávarpi sínu 1945, er fæddur var þennan dag árið 1892. Ætli einhverjir hérlendir hafi á einhverjum tímapunkti ef til vill misreiknað þýðingarhlutfallið. Vinátta og virðing Breta gæti verið okkur mikill fjársjóður í það minnsta í vetur. Af sama tilefni sagði sami maður

Því minni sem þjóðin er því meira á hún undir að haga svo búskap sínum, en einkum þó viðskiptunum út á við að hún með því ávinni sér virðingu annarra þjóða.

Höfum við hagað búskap okkar með þeim hætti að hægt sé að halda því fram að við hefðum getað áunnið okkur virðingu annarra þjóða? Hann bætti um betur og hélt áfram:

Að minnsta þjóð heimsins getur vel teflt velferð sinni og sjálfstæði í voða ef hún temur sér siðleysi í þeim efnum sem beinast blasa við sjónum annarra þjóða, og jafnvel snerta beinlínis hagsmuni þeirra, þ.e.a.s. meðferð utanríkismála sinna. Þetta verðum við Íslendingar að gera okkur ljóst og hætta því að ræða utanríkismálin með óvarfærni og þeim ofsa og óbilgirni sem tíðast ríkir í innanlandsmálum 

Þá skiptir varla máli hvaða afstöðu fólk hefur til samstarfs við tilteknar þjóðir á vettvangi utanríkismála, heldur gilda varfærni og góðir siðir. Á laugardaginn voru aðeins færri ár frá fæðingu annars landsföðurs. Á laugardaginn var var líka nokkuð lengra síðan fræg mótmæli áttu sér stað í Reykjavík. 


námundun

Sú vísiltala sem lækkað, féll, lækkaði, hrundi, lækkaði, dalaði, lækkaði o.s.frv. var miðuð við 15 fyrirtæki, en þá voru líka fleiri fyrirtæki sem kepptust um fjármagn í höllinni atarna. Nú var kynnt til sögunnar ný vísitala sem miðar við 6 fyrirtæki. Kannski færist líf í leikinn á nýjan leik og Kauphöll fari menn að höndla með meira fé en nú er gert og þar verði verslað með búta úr fleiri félögum en nú er gert, hver veit nema einhvern tíman verði hægt að miða við 15 fyrirtæki í vísitölu í framtíðinni. Kannski væri nær að nýja vísitala væri kölluð Útvalsvísitalan, enda eru fyrirtækin útvalin, ekki satt?


En það breytir því ekki að þetta er svolítið sérstök námundun, Sér er nú hver námundunin segi ég:

Áður hafði vísitalan verið núllstillt í þúsund stigum

Núll er ekki neitt, í einu þúsundi eru þau í það minnsta þrjú, kannski er þetta þreföld ákvörðun til að auka líkur á nákvæmni.

-
meðan ég man, gleðilegt nýtt ár, vonandi opnaði fólk árið af varfærni. Ég er kominn norður aftur, sitt hvað síast inn.


mbl.is Úrvalsvísitalan lækkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband