Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Frá vísindum til verðmæta

Liðinn erverdmaeti_vegna_throunar.pngum áratugur síðan mörkuð var stefna um metnaðarfullt rannsókna- og þróunarstarf í íslenskum sjávarútvegi, með stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi 2003. Síðan hafa vísindi og verðmætasköpun í sjávarútvegi gengið hönd í hönd að hagnýta ónotuð tækifæri til landsog sjávar.  Niðurstaðan: Nýting afla í útflutningsafurðir er um fjórðungi meiri en áður og meira en tvöfalt hærri útflutningstekjur koma inn í landið úr hverju tonni afla. Þetta er frábær árangur, sem sannarlega sýnir hversu arðsöm fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun getur verið.

Hvað liggur að baki? 

Bætt nýting hefur náðst í kjölfar bættrar meðhöndlunar hráefnis og fjárfestingar í bættum ferlum, t.a.m. við flutning og kælingu. Lögð hefur verið áhersla á að tengja saman virðiskeðju sjávarfangs þannig að hægt sé að veita upplýsingar um uppruna hráefnis og nýta reynslu fyrri ára til stöðugra umbóta.  Í þessu augnamiði er upplýsingatækni hagnýtt, t.d. með nýjum ísreikni fyrir snjallsíma á formi smáforrits (e. app), sem gefur þeim sem höndla með fisk möguleika á að sjá á augabragði hversu mikla kælingu afli þarf. Viðfangsefnin hafa dregið dám af umhverfinu, frá því að menn og konur reyndu að bjarga verðmætunum.

Afurðir eða úrgangur?

Á sama tíma og kappkostað er að sem mestum hluta hvers fisks sé ráðstafað til framleiðslu verðmætustu aðalafurðar hefur sjónum verið beint að því sem ekki er eins verðmætt. Fyrir 10 árum var talað um afurðir og úrgang. Ef heill fiskur er fluttur úr landi verða afurðir til hliðar við aðalafurð ekki framleiddar hér á landi og alls óvíst hvort þær yrðu yfirhöfuð framleiddar. Í dag sjáum við tækifæri í öllu hráefni og framleiðum afurðir í hæstu gæðaflokkum.  Útflutningur á niðursoðinni lifur er nálægt 30 milljón dósum á ári, að verðmæti um 3 milljarðar. Þurrkaðar afurðir eru meginuppistaðan í útflutningi til Nígeríu, hvers verðmæti nema um 16 milljörðum á ári. Hagnýting líftækni hefur rutt sér til rúms og þar eru tækifærin gríðarleg. Það sem áður var marningur er orðið að lífvirkum peptíðum í dag, úr slógi unnin verðmæt ensím og roð nýtt til framleiðslu lækningavara.  Framsækin fyrirtæki eins og Kerecis, Zymetech og Primex hafa litið dagsins ljós, svo einhver séu nefnd, og með þolinmæði haslað sér völl á afmörkuðum syllum.

Mannauður er mikilvægasta auðlindin

Í þekkingariðnaði eins og framleiðslu sjávarafurða er mannauðurinn mikilvægasta auðlindin. Vel menntað fólk er í dag ráðið til starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum þar sem það skapar fyrirtækjunum og byggðarlögunum sem þau starfa í aukin verðmæti.  Fyrirtæki styðja við og taka þátt í doktorsnámi, þar sem saman koma rannsóknastofnanir, fyrirtæki og háskólar. Með samstarfi Matís við háskóla landsins, m.a. við Háskóla Íslands um matvælafræðinám og Háskólann á Akureyri um auðlindanýtingu og tengingu framhaldsnáms við nýsköpun í sjávarútvegi, er grunnur lagður að frumkvöðlum framtíðarinnar.

Hvort sem litið er á bolfisk, uppsjávarfisk eða aðrar sjávarafurðir, eru framundan fjölmörg tækifæri til sóknar ef rétt er á spilum haldið.  Aukin vöruþróun, þar sem áhersla verður á að nýta sérstöðu og heilnæmi íslensks sjávarfangs er meðal þessara tækifæra. Síðan AVS sjóðurinn var stofnaður hafa útflutningsverðmæti íslensks sjávarfangs ríflega tvöfaldast.  Með því að nýta tækifærin í samvinnu má bæta um betur, endurtaka leikinn, og meta ávinninginn með alþjóðlegum viðmiðunum.

Sveinn Margeirsson & Arnljótur B. Bergsson 29. nóvember 2013


Klikki kælingin kemur klink í stað seðla

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa í auknum mæli innleitt ferla er miða að aukinni verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi og byggja þeir á lausnum sem þróaðar hafa verið í samstarfi milli ólíkra fyrirtækja og rannsóknaraðila. Fyrir nokkrum árum bjuggu Íslendingar við böl ofgnóttar og lögðu ekki allt kapp á gæði og nýtingu, heldur voru uppteknari af magni. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa í gegnum tíðina unnið saman að rannsóknum og þróun, ætíð er áhersla lögð á að leysa þá flöskuhálsa sem þrengja mest að hverju sinni, allt frá því að talað var um að bjarga þyrfti verðmætum til þess dags í dag sem við kappkostum að auka verðmætin.

Daglega eru íslenskar sjávarafurðir seldar á eftirsóttu verði víðsvegar um heim. Þó Íslendingar framleiði ekki þjóða mest af sjávarafurðum er framleiðsla íslensks sjávarútvegs býsna verðmæt. Við höfum náð árangri með áherslu á gæði í stað magns. Þekking hefur aukið hagræðingu í sjávarútvegi og um leið meiri hagkvæmni og stuðlað að meiri verðmætasköpun.

Sérhver seljandi íslenskra sjávarafurða stefnir að því að selja sínar vörur ítrekað. Það kaupir enginn íslenskan fisk tilneyddur. Íslenskar útgerðir og fiskvinnslur selja í undantekningartilfellum þeim sem í raun kyngir munnbitanum. Eins og gámur, sem skipað er upp í höfn við Norðursjó, fer yfir nokkur landamæri á leið sinni uns úr honum er dreift á matarborð við Miðjarðarhafið, höndla nokkrir aðilar með íslenskan fisk frá verkun að verslun. Hver svo sem neytir, hvar svo sem sá gleypir, verður sá hinn sami að vera sáttur við verðinn. Ánægja með vöruvöndun eykur líkur á endurteknum viðskiptum. Lykilatriði er að neytendur séu sáttir við neysluvörur í því ástandi sem þeim eru þær afhentar. Hver sá sem höndlar með fisk þarf að gangast undir aga og beita tilhlýðilegum vinnubrögðum. Ónóg kæling hindrar möguleika á hæsta verði fyrir afurðir, rétt eins og óvönduð vinnubrögð við meðhöndlun afla draga úr gæðum afurða.

Kæling er ávísun á verðmæti

Hver einasti fiskur sem er úr hafinu umhverfis Ísland dreginn á möguleika á að vera seldur háu verði. Hvort aflinn verði að mestu mögulgu verðmætum veltur á meðhöndluninni. Vanda þarf til verka, kæla afla um borð og viðhalda kælingu fisks ámeðan vinnslu stendur. Pakka má kældum flökum í einangraðar umbúðir með kælimiðli til varðveislu kalds ástands matvæla. Unnt er að flytja slíka vöru með skipum úr landi.

Með markvissri kælingu frá því að fiskurinn er fangaður í gegnum vinnslu fisksins og í flutningi er fiskvinnslum fær sú leið að flytja fersk fiskflök mskipi (f.f.m.s.) í stað þess að flytja fersk fiskflök mflugi (f.f.m.f.). Flutningur með skipum er mun ódýrari en flutningur með flugi. Veruleg aukning var í flutningi f.f.m.s á árinu 2012, þá var útflutningur f.f.m.s. um 41% af öllum útflutningi ferskra flaka og skilaði útflutningur f.f.m.s. um 13,4 milljörðum króna eða um 38% af útflutningsverðmætum allra ferskra flaka. Þessi útflutningur væri ekki mögulegur ef menn köstuðu til höndunum við blóðtæmingu fisks og ísun afla. Af virðingu fyrir hráefninu misbjóða menn því ekki með ónærgætinni meðhöndlun og af virðingu fyrir neytendum kappkosta menn að búa sem best um þá vöru sem neytandinn kaupir til að auka líkur á að viðkomandi leiti að fiski frá Íslandi á nýjan leik.

Kostir víðtæks samstarfs

Hvað kælingu verðar var brautin rudd með margþættu samstarfi. Að því samstarfi komu m.a. Matís, fiskvinnslurnar Tangi, nú HB Grandi Vopnafirði, Útgerðarfélag Akureyringa og Festi nú Rekstrarfélagið Eskja Hafnarfirði. Þá tóku tækjaframleiðendur þátt; Skaginn á Akranesi, þróaði ofurkælingartæki og loks hefur umbúðaframleiðandi, Promens, komið að málum hvort heldur sem viðhalda á hráefnum eða afurðum kældum. Samstarfið var styrkt af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóði Rannís auk erlendra rannsókna- og þróunarsjóða.

Kæling opnar fleiri dyr

Afsprengi kælingar liggur í þeirri staðreynd að með markvissri kælingu heils fisks eru meiri líkur til þess að vinna megi verðmæti með framleiðslu hliðarafurða úr hráefninu. Kæling skiptir einnig máli í vinnslu uppsjávarfiska, meira um það síðar.

Arnljótur B. Bergsson & Sigurjón Arason -  29. október 2013


Mannlíf á Seltjarnarnesi

Ég sá þessa mannlífsmynd í Morgunblaðinu í gær. Þessi setur mannlíf á Seltjarnarnesi í nýjan fókus ekki satt?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband