24.1.2007 | 02:10
Þankagangur
Þar sem ég á í basli, við að standa undir þeim metorðum sem manni hefur áskotnast í gegnum tíðina. Því er ekki að leyna að erlend aðstoð við uppfærslu heimasíðu minnar hefur farið í handaskolum, legg ég þeim mun meiri áherslu á blaðrið, hér eftir en hingað til.
Það er ákaflega ánægjulegt að stærstu fréttir liðinnar helgar hafi ekki verið fengnar frá lögreglunni, heldur af sviði stjórnmálanna.
Ég gæti ímyndað mér að á fyrstu samkomu Framsóknarflokksins að loknum Alþingiskosningum verði valið um hvort Valgerður Sverrisdóttir eða Guðni Ágústsson leiði Framsóknarmenn inn í framtíðina, þ.e.a.s. ef Framsóknarflokkurinn braggast ekki nægjanlega í höfuðborginni til að tryggja formanninum þingsæti.
Ef allt fer sem horfir verður Vestmanneyjingur á framboðslista Sjálfstæðisflokksins kjördæmakjörinn og munu atkvæði greidd Sjálfstæðisflokknum í öðrum kjördæmum ekki hafa áhrif á kjör Vestmanneyjingsins.
Það er orðið spennandi að sjá til Ný-Frjálslyndra, sem fundu að skoðanaskiptum Gunnars Örlygssonar og sumir þeirra hafa sagt hann hafa komið illa fram við varamann sinn, þar sem hann hefur ekki vikið um stundarsakir af Alþingi að loknum skoðanaskiptum. Ekki er hægt að segja það að Gunnar Örn hafi stundað það að kalla inn varamann sinn. Nú gengur þingmaður úr öðrum flokki til liðs við Ný-Frjálslynda og ekki amast þeir við vistaskiptunum.
Í þessu ljósi sá ég að Sigurlín ritaði:
"mér hefur verið sagt að það sé öllu heldur mun hagkvæmara fyrir mig að vera í 2. sætinu vegna aðstöðumunarins á aðgenginu að upplýsingum."
Mér er spurn hvaða samflokks maður Sigurlínar kemur svona fram við hana. Þess ber að geta að Sigurlín var uggandi um að liðsaukinn gæti dregið úr, eða tafið, frama hennar innan Nýja-Frjálslyndaflokksins.
Því miður gat ég ekki setið Kjördæmisþingið í Mývatnssveit og komið að samþykkt framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norð-Austurkjördæmi, þar af leiðandi er hinn síungi ofurhugi Halldór Blöndal ekki í fyrstasæti framboðs listans. Nú þurfa Sjálfstæðismenn í Norð-Austurkjördæmi að bíða og sjá hvort framboðslistinn sem er leiddur af nýliðanum Kristjáni Þór Júlíussyni hljóti náð og blessun miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Að vísu er þeim kappinn ekki alveg ókunnugur því hann situr jú sem formaður sveitastjórnarráðs í miðstjórninni. Ég sé hinsvegar ekki hina þrjá sem tóku þátt í prófkjörinu flokksins, en náðu ekki bindandi kosningu, í staðinn má finna á framboðslistanum nöfn sem ekki hafa tekið þátt í nokkru prófkjöri eða nokkurri kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins fram að þessu, eftir því sem ég best man og veit. Kann það góðri lukku að stýra?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.