13.2.2007 | 04:16
Ef III.
Segjum sem svo að þjóðhyggjustjórn Jóns Sigurðssonar sæti sæl og glöð í sumar uns hefðbundið þinghald hæfist í október. Frjálslyndu þinmennirnir myndu að þessu sinni ekki reyna að segja nei við tilnenfningu um Össur Skarphéðinsson sem forseta, heldur hugsa málið, og þar sem nýr meirihluti virtist fylkja sé á bak við fyrrum Alþýðubandalagsmanninn Össur Skarphéðinsson myndu frjálslyndir stinga upp á fyrrum Alþýðubandalagsmanninum Kristni H. Gunnarssyni í staðinn.
Vitanlega myndu hinir frjálslyndu gera hvað þeir gætu til að rifja upp vinstrisinnaða og græna svardaga um langþráð frí framsóknar frá landsstjórninni. Frjálslyndir myndu gera hvað þeir gætu til að ala á óeiningu meðal stjórnarliða. Á veikustu stundu stjórnarinnar, þegar þref um fjárlög og málþóf stæði sem hæst væri borin fram hin vikulega vantraust tillaga á ríkistjórnina. Jón Sigurðsson bæðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, fyrr en síðar, sennilega fyrir jól.
Þá kæmi að stóru stundinni, óbundnar hendur Ólafs Ragnars til myndunar ríkisstjórnar, nokkuð sem hann dreymdi um er hann lagði stund á stjórnmálafræði til forna og nokkuð sem hann hefur beðið eftir í meir en áratug á Bessastöðum.
Vitanlega myndi Ólafur Ragnar vilja geyma í stað þess að gleyma hægrisveiflu Hannibalssonar Jóns í apríl lok 1991. En Ólafur Ragnar mun muna og vita og þekkja nauðsyn þess að samþykkt verði fjárlög svo stjórnkerfið geti virkað, óháð því hverjir sitja á ráðherrarökstólum. Ólafur Ragnar myndi komast að því fyrr en seinna að þeir sem skara eld að eigin köku með góðum árangri á erlendum hlutabréfamörkuðum hafa ekki tíma til að stýra smáþjóð hvar eiginhlutir og eigin ágóði þeirra væri ekki eins augljós og á OMX eða OBX, Jón Ásgeir, Björgólfur Thor, bræðurnir í Bakkavör, Hannes og Pálmi myndu gera eins og fyrrum varaþingmaður Guðmunar Árna, biðjast undan að starfa í þágu þjóðarinnar. Ólafur Ragnar myndi ekki hika við að reyna að mynda utanþingsstjórn. Vitanlega myndi Ólafur Ragnar reyna að vísa til ábyrgðartilhneigingar háttvirta þingmanna í öllum flokkum.
Rétt eins og þegar Ríkisstjóri myndaði stjórn 1942 með tegingum inn í þingflokka myndi Ólafur Ragnar reyna slíkt og hið sama. Eins og þá fyrrum forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde væri Ólafi Ragnar ekki á móti skapi að draga þá inn í ríkisstjórn seðlabankastjórann Þorvald Gylfason sem Ólafur Ragnar myndi setja yfir fjármálaráðuneytið. Ólafi Ragnar væri kappsmál að hefja til metorða Stefán Ólafsson og Birgi Björn Sigurjónsson andstæðinga auðhyggju með skipun í stóla félagsmála og heilbrigðisráðherra.
En til að teljast hipp og kúl myndi Ólafur Ragnar hafa Björk Guðmundsdóttur utanríkisráðherra, Andra Snæ sjávarútvegsráðherra og Jakob Frímann menntamálaráðherra í huga við útdeilingu ráðuneyta. Ekki er ólíklegt að Ólafur Ragnar myndi eyrnamerkja Ragnari Aðalsteinssyni Dóms og Kirkjumálaráðuneytið. Sem gamall þáttastjórnandi RÚV ohf. myndi Ólafur Ragnar muna eftir öðrum gömlum þáttastjórnanda af RÚV ohf. þegar kæmi að vali á samgönguráðuneyti, þá yrði Ómar Ragnarsson til kallaður. Til að halda jafnvægi í stjórninni, og fyrir orð Dorritar, myndi Ólafur Ragnar bjóða Rannveigu Rist iðnaðar og viðskiptaráðuneytið. Nái kennitöluhafarnir samkomulagi við kennitölu notendurna í Frjálslyndaflokknum myndi Ólafur Ragnar gera Margréti Sverrisdóttur að umhverfisráðherra. Ekki er útilokað að ólafur myndi reyna að gæla við hið nýja auðvald, svona til að halda öllum jafn ánægðum, Ingibjörg S. Pálmadóttir yrði okkar nýji landbúnaðarráðherra. Yfir þetta úrvalslið setti Ólafur Ragnar ferðafélaga sinn af rauðljósaferðinni, því annar fengist ekki til starfans, og þar með væri ráðuneyti Jóns Baldvins myndað. Hvort þessari stjórn tækist að koma fram með fjárlegafrumvarp sem nyti stuðnings Alþingismanna, veit ég ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.