verslun mannanna

En þetta ástand vort er og sprottið af mannavöldum. Fyrst er þá hér til að nefna hina langdrepandi kaupveldiskúgun fyrri alda, og í annan stað samgönguleysið og viðskiftaleysið við öll lönd önnur en Danmörk, er verzlunaránauðinni var samfara [...] Verzlun vor gengr enn í sporum einkaverzlunarinnar; hún hefir enn sem fyrr aðsetr sitt í Danmörku og hefr þaðan göngu sína á vorum, leggr alla framfærsluna á danska varnínginn, frá 50 til 100 af hundraði hverju, og flytr svo heim til Danmerkr úr selinu á haustin með farfuglunum [...]   Auk þess er nú var talið er einkum einn mikill ókostr á verzlun vorri, og er hann ein af erfðasyndum hinnar fornu einokunar. Öll fyrirhöfnin eðr allr tilkostnaðr verzlunarinnar er lagðr á útlenzka varnínginn, en hinn innlenzki varníngr er keyptr með mjög svo sama verði sem hann selst með erlendis. Þetta kemr að vísu með fram af samgönguskorti vorum við útlönd, svo kaupmenn vorir þykjast enn þurfa að sitja á vetrum utanlands, en þó einkum af gömlum óvana eðr skoðun þeirri, að verzlunin við land vort hafi upptök sín í Kaupmannahöfn eðr annarstaðar erlendis, en eigi í landinu sjálfu. Kaupmaðrinn byrjar verzlunina utanlands frá, og vill því tryggja sig þegar í upphafi gegn öllum skaða, og það gerir hann með því að leggja alt eðr sem mest á útlenzka varnínginn, er hann flytr híngað og selr. Fari nú svo eitthvert sinn, að hann bíði talsverðan halla á íslenzku vörunni, þá hugsar hann sér til hreifíngs að leggja ríflegar á útlenzka kaupeyrinn hið næsta sinn, ef hann þykist eigi hafa það í hendi sinni að skamta verðið á íslenzka varníngnum næsta sumar eftir En af aðferð þessari leiðir auðsjáanlega, að kaupmaðrinn hugsar svo lítið sem ekki um hvort innlenzka varan sé útgengileg eðr eigi. Fyrir því gerir hann lítinn eðr engan mun á vandaðri og óvandaðri vöru hjá landsmönnum, og gerir sjálfr lítið eðr als ekki til þess að hún verði útgengilegri; kaupmennirnir vita eðr hugsa sem svo: æfiniega er hægrinn hjá að jafna halla vorn á Íslendíngum að ári komanda[...] En hversu margir og stórir sem gallar þessir eru, þá eru þeir engan veginn svo mjög að kenna mönnum þeim er nú standa fyrir verzlun vorri, sem hinu, að þótt verzlun vor sé frjáls í orði og að nafni, þá er hún engu að síðr einkadóttir einkaverzlunarinnar, og kippir því einlægt í kynið. Verzlunin er enn sem fyrr í raun réttri búsett erlendis, og er því útlend og skoðar oss sem útlendínga sína og sjálfa sig sem útlendíng vorn. það skiftir litlu hvað verzlunin heitir að lögum og á blöðum, hitt skiftir mestu, hvað hún er í sannreyndinni. Þessi útlendíngssvipr og ættarmót þekkist og meðal annars á því, að fáir munu finna nokkurn eiginlegan mun á kaupskaparlagi kaupmanna fyrir þá sök eina, að nokkrir þeirra eru fæddir Íslendíngar en aðrir fæddir útlendíngar. Vaninn er ríkr, og rás viðburðanna verðr eigi breytt með lagaboðum einum saman. Allar hinar góðu og vitrlegu tilraunir kaupstjóra Gránufélagsins og velvild félagsmanna sýna ljóslega hversu örðugt og enda ókleyft er að kljúfa straumröst tímans og hins fasta vana.

Eg skal nú drepa einúngis á tvo stórgalla á verzlun vorri með fylgigöllum þeirra. Annarr stórgallinn er sá að enginn réttnefndr smásali er í landinu, því “borgararnir” geta eigi heitið því nafni. Kaupmenn vorir eru því vanalega stórkaupmenn í Höfn, farmenn milli Íslands og Danmerkr og loksins smásalar á landi hér. Afleiðíngin af þessari skipun er sú, að hér verðr svo lítil sem engin samkepni milli kaupenda og selénda, sem er einmitt lífið og sálin í frjálsum viðskiftum manna og aðalvörðr verðlagsins.

  • Alþýða manna hefir bein viðskifti við kaupmanninn sem smásala, því enginn annarr smásali er til; en henni eru samtökin jafnan erfið og því ólagin, enn þótt miklu þéttbýlla sé en er á landi voru. “Dreifðu og drotnaðu”, segir fornt máltæki, og “aumr er höfuðlauss herr”, segir annað. Það annað, og er það enn lakara.
  • Alþýða manna ber svo lítið sem ekki skynbragð á verðlag á útlenzka varníngnum, svo sem hann er keyptr stórkaupum erlendis, og veit því eigi hver framfærslan er á honum hér, með því framfærslan er munrinn á stórkaupaverði varníngsins erlendis og smásöluverði hans hér, og því síðr veit hún hve mikil framfærslan ætti að vera, en hún er hinn rétti og hæfilegi tilkostnaðr eðr fyrirhöfn.
  • Alþýða veit því aldrei hvort kaupmaðrinn selr með vægu og sanngjörnu eðr með óvægilegu og ósanngjörnu verði, af því að enginn stórkaupmaðr og engin stórkaup eru í landinu til að miða við, heldr eintóm smásala kaupmanna.
  • Alþýða veit eingöngu, hvort einn kaupmaðr selr aðalvöruna dýrara en annarr, meira veit hún eigi.

Svo stendur í góðri bók prentaðri af Möller árið 1880.

Er ekki gott að rifja þetta upp þegar menn tala um hver hagnist mest af lækkun virðisaukaskatts.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband