12.4.2014 | 12:51
Klikki kælingin kemur klink í stað seðla
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa í auknum mæli innleitt ferla er miða að aukinni verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi og byggja þeir á lausnum sem þróaðar hafa verið í samstarfi milli ólíkra fyrirtækja og rannsóknaraðila. Fyrir nokkrum árum bjuggu Íslendingar við böl ofgnóttar og lögðu ekki allt kapp á gæði og nýtingu, heldur voru uppteknari af magni. Sjávarútvegsfyrirtæki hafa í gegnum tíðina unnið saman að rannsóknum og þróun, ætíð er áhersla lögð á að leysa þá flöskuhálsa sem þrengja mest að hverju sinni, allt frá því að talað var um að bjarga þyrfti verðmætum til þess dags í dag sem við kappkostum að auka verðmætin.
Daglega eru íslenskar sjávarafurðir seldar á eftirsóttu verði víðsvegar um heim. Þó Íslendingar framleiði ekki þjóða mest af sjávarafurðum er framleiðsla íslensks sjávarútvegs býsna verðmæt. Við höfum náð árangri með áherslu á gæði í stað magns. Þekking hefur aukið hagræðingu í sjávarútvegi og um leið meiri hagkvæmni og stuðlað að meiri verðmætasköpun.
Sérhver seljandi íslenskra sjávarafurða stefnir að því að selja sínar vörur ítrekað. Það kaupir enginn íslenskan fisk tilneyddur. Íslenskar útgerðir og fiskvinnslur selja í undantekningartilfellum þeim sem í raun kyngir munnbitanum. Eins og gámur, sem skipað er upp í höfn við Norðursjó, fer yfir nokkur landamæri á leið sinni uns úr honum er dreift á matarborð við Miðjarðarhafið, höndla nokkrir aðilar með íslenskan fisk frá verkun að verslun. Hver svo sem neytir, hvar svo sem sá gleypir, verður sá hinn sami að vera sáttur við verðinn. Ánægja með vöruvöndun eykur líkur á endurteknum viðskiptum. Lykilatriði er að neytendur séu sáttir við neysluvörur í því ástandi sem þeim eru þær afhentar. Hver sá sem höndlar með fisk þarf að gangast undir aga og beita tilhlýðilegum vinnubrögðum. Ónóg kæling hindrar möguleika á hæsta verði fyrir afurðir, rétt eins og óvönduð vinnubrögð við meðhöndlun afla draga úr gæðum afurða.
Kæling er ávísun á verðmæti
Hver einasti fiskur sem er úr hafinu umhverfis Ísland dreginn á möguleika á að vera seldur háu verði. Hvort aflinn verði að mestu mögulgu verðmætum veltur á meðhöndluninni. Vanda þarf til verka, kæla afla um borð og viðhalda kælingu fisks ámeðan vinnslu stendur. Pakka má kældum flökum í einangraðar umbúðir með kælimiðli til varðveislu kalds ástands matvæla. Unnt er að flytja slíka vöru með skipum úr landi.
Með markvissri kælingu frá því að fiskurinn er fangaður í gegnum vinnslu fisksins og í flutningi er fiskvinnslum fær sú leið að flytja fersk fiskflök með skipi (f.f.m.s.) í stað þess að flytja fersk fiskflök með flugi (f.f.m.f.). Flutningur með skipum er mun ódýrari en flutningur með flugi. Veruleg aukning var í flutningi f.f.m.s á árinu 2012, þá var útflutningur f.f.m.s. um 41% af öllum útflutningi ferskra flaka og skilaði útflutningur f.f.m.s. um 13,4 milljörðum króna eða um 38% af útflutningsverðmætum allra ferskra flaka. Þessi útflutningur væri ekki mögulegur ef menn köstuðu til höndunum við blóðtæmingu fisks og ísun afla. Af virðingu fyrir hráefninu misbjóða menn því ekki með ónærgætinni meðhöndlun og af virðingu fyrir neytendum kappkosta menn að búa sem best um þá vöru sem neytandinn kaupir til að auka líkur á að viðkomandi leiti að fiski frá Íslandi á nýjan leik.
Kostir víðtæks samstarfs
Hvað kælingu verðar var brautin rudd með margþættu samstarfi. Að því samstarfi komu m.a. Matís, fiskvinnslurnar Tangi, nú HB Grandi Vopnafirði, Útgerðarfélag Akureyringa og Festi nú Rekstrarfélagið Eskja Hafnarfirði. Þá tóku tækjaframleiðendur þátt; Skaginn á Akranesi, þróaði ofurkælingartæki og loks hefur umbúðaframleiðandi, Promens, komið að málum hvort heldur sem viðhalda á hráefnum eða afurðum kældum. Samstarfið var styrkt af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóði Rannís auk erlendra rannsókna- og þróunarsjóða.
Kæling opnar fleiri dyr
Afsprengi kælingar liggur í þeirri staðreynd að með markvissri kælingu heils fisks eru meiri líkur til þess að vinna megi verðmæti með framleiðslu hliðarafurða úr hráefninu. Kæling skiptir einnig máli í vinnslu uppsjávarfiska, meira um það síðar.
Arnljótur B. Bergsson & Sigurjón Arason - 29. október 2013
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.