Frá vísindum til verðmæta

Liðinn erverdmaeti_vegna_throunar.pngum áratugur síðan mörkuð var stefna um metnaðarfullt rannsókna- og þróunarstarf í íslenskum sjávarútvegi, með stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi 2003. Síðan hafa vísindi og verðmætasköpun í sjávarútvegi gengið hönd í hönd að hagnýta ónotuð tækifæri til landsog sjávar.  Niðurstaðan: Nýting afla í útflutningsafurðir er um fjórðungi meiri en áður og meira en tvöfalt hærri útflutningstekjur koma inn í landið úr hverju tonni afla. Þetta er frábær árangur, sem sannarlega sýnir hversu arðsöm fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun getur verið.

Hvað liggur að baki? 

Bætt nýting hefur náðst í kjölfar bættrar meðhöndlunar hráefnis og fjárfestingar í bættum ferlum, t.a.m. við flutning og kælingu. Lögð hefur verið áhersla á að tengja saman virðiskeðju sjávarfangs þannig að hægt sé að veita upplýsingar um uppruna hráefnis og nýta reynslu fyrri ára til stöðugra umbóta.  Í þessu augnamiði er upplýsingatækni hagnýtt, t.d. með nýjum ísreikni fyrir snjallsíma á formi smáforrits (e. app), sem gefur þeim sem höndla með fisk möguleika á að sjá á augabragði hversu mikla kælingu afli þarf. Viðfangsefnin hafa dregið dám af umhverfinu, frá því að menn og konur reyndu að bjarga verðmætunum.

Afurðir eða úrgangur?

Á sama tíma og kappkostað er að sem mestum hluta hvers fisks sé ráðstafað til framleiðslu verðmætustu aðalafurðar hefur sjónum verið beint að því sem ekki er eins verðmætt. Fyrir 10 árum var talað um afurðir og úrgang. Ef heill fiskur er fluttur úr landi verða afurðir til hliðar við aðalafurð ekki framleiddar hér á landi og alls óvíst hvort þær yrðu yfirhöfuð framleiddar. Í dag sjáum við tækifæri í öllu hráefni og framleiðum afurðir í hæstu gæðaflokkum.  Útflutningur á niðursoðinni lifur er nálægt 30 milljón dósum á ári, að verðmæti um 3 milljarðar. Þurrkaðar afurðir eru meginuppistaðan í útflutningi til Nígeríu, hvers verðmæti nema um 16 milljörðum á ári. Hagnýting líftækni hefur rutt sér til rúms og þar eru tækifærin gríðarleg. Það sem áður var marningur er orðið að lífvirkum peptíðum í dag, úr slógi unnin verðmæt ensím og roð nýtt til framleiðslu lækningavara.  Framsækin fyrirtæki eins og Kerecis, Zymetech og Primex hafa litið dagsins ljós, svo einhver séu nefnd, og með þolinmæði haslað sér völl á afmörkuðum syllum.

Mannauður er mikilvægasta auðlindin

Í þekkingariðnaði eins og framleiðslu sjávarafurða er mannauðurinn mikilvægasta auðlindin. Vel menntað fólk er í dag ráðið til starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum þar sem það skapar fyrirtækjunum og byggðarlögunum sem þau starfa í aukin verðmæti.  Fyrirtæki styðja við og taka þátt í doktorsnámi, þar sem saman koma rannsóknastofnanir, fyrirtæki og háskólar. Með samstarfi Matís við háskóla landsins, m.a. við Háskóla Íslands um matvælafræðinám og Háskólann á Akureyri um auðlindanýtingu og tengingu framhaldsnáms við nýsköpun í sjávarútvegi, er grunnur lagður að frumkvöðlum framtíðarinnar.

Hvort sem litið er á bolfisk, uppsjávarfisk eða aðrar sjávarafurðir, eru framundan fjölmörg tækifæri til sóknar ef rétt er á spilum haldið.  Aukin vöruþróun, þar sem áhersla verður á að nýta sérstöðu og heilnæmi íslensks sjávarfangs er meðal þessara tækifæra. Síðan AVS sjóðurinn var stofnaður hafa útflutningsverðmæti íslensks sjávarfangs ríflega tvöfaldast.  Með því að nýta tækifærin í samvinnu má bæta um betur, endurtaka leikinn, og meta ávinninginn með alþjóðlegum viðmiðunum.

Sveinn Margeirsson & Arnljótur B. Bergsson 29. nóvember 2013


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband