8.5.2007 | 21:21
málið um álið
Menn hafa sagt að rétt væri að hægja á stóriðjuframkvæmdum vegna mikillar þenslu í hagkerfinu. Áform Alcoa um uppbyggingu á Húsavík falla vel að þessum hugmyndum, þar sem áætlað er að byggja upp í áföngum og að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en eftir nokkur ár. Þannig gefst efnahagslífinu svigrúm til að bregðast við.Víðar þarf aðgát en við stóriðjuframkvæmdir. Heildarfjárfesting Alcoa við byggingu Fjarðaáls er áætluð um 90 milljarðar. Stór hluti þeirrar fjárhæðar eru kaup á kerfum, tækjum og tólum sem svo eru flutt inn til landsins og sett upp á Reyðarfirði. Af þeirri upphæð er áætlað að um 25 milljarðar króna falli til hér á landi á fjögurra ára framkvæmdatímabili. Það er áhugavert að bera þessar tölur saman við þær upphæðir sem varið hefur verið til byggingar verslunar-, skrifstofu- og íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands hafa útlán bankanna til atvinnulífsins vaxið um 1.225 milljarða króna frá árinu 2003. Heimilin hafa á sama tíma bætt við sig 515 milljarða króna lántökum. Og á einu ári frá desember 2005 til desembers 2006 runnu 704 milljarðar króna í lánsfé frá bönkunum út í efnahagslífið samkvæmt sömu heimildum.
Þá virkar fjárfestingin á Reyðarfirði frekar smávaxin í samanburði við þessar tölur.
Nú er framleiðslan hafin, framleiðslan eykst smátt og smátt að sama skapi dregur úr framkvæmdunum og áhrifum þeirra. Þá þurfa menn líklega að finna annan blóraböggul en Fjarðaál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.