Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
24.11.2008 | 23:51
Lok könnunar
8.11.2008 | 10:28
Gott að eiga góða að
Því miður hef ég hvorki komið til Póllands né lært pólsku og því get ég ekki þakkað fyrir mig á frummálinu.
Óháð því hvort lán geti talist lán í óláni, þá má sennilega slengja því fram að pólsk stjórnvöld hafi haft veður af því að Pólland hafi um nokkurt skeið lánað Íslandi mannafla. Líklega má segja sem svo að Ísland hafi ekki farið alltof illa með þann mannafla, í ljósi vilja og liðlegheita pólskra stjórnvalda. Nú leggur Pólland Íslandi lið á nýjan leik og með nýjum hætti. Nú lánar Pólland Íslandi fjármagn. Vonandi förum við vel með því sem okkur er treyst fyrir.
Ég vona að íslenskum stjórnvöldum gangi vel að vinna að lausn vandans sem fyrir okkur liggur.
Geir staðfestir pólska aðstoð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2008 | 21:06
Ekið á íslenskum vegi í október
Þó óvíst kunni að vera hvort nú sé rétta stundin, þá er jafnframt óvíst hvort það sé sérlega óstundvíst að nefna það sem mér er hugleikið á þessari stundu.
Þar sem ég ók þjóðveginn eins og hann leggur tvíbreiður en ekki tvöfaldur úr Borgarfirði upp á Holtavörðuheiði og inn í Húnavatnssýslur þótti mér eftirtektavert hve óslétt hið bundna slitlag er orðið. Þó ég hafi haft augun á veginum gat ég ekki greint nákvæmlega hví yfirborðið væri óslétt. Ég vildi forða því að skapa hættu ástand með aksturslagi sem ekki hentaði umferðarhraðanum almennt. Ég vildi ekki nema staðar að óþörfu til þess eins að kanna ástæður hins óslétta yfirborðs. þótti mér sem eitthvert ökutækið sem hefði verið að flytja allsérstæðan varning í líkingu við olíumöl hefði misst smávegis hér og þar á yfirborð vegarins. Ég vona svo sannarlega að ekki sé um holur að ræða. Holur í vegakerfinu eru miklu skemmtilegri ef þær eru láréttar og liggja í gegnum fjöll heldur en ef þær eru lóðréttar og eru ferðalöngum til ama. Óskandi væri að ójöfnurnar geti þjónað einhverjum tilgangi í vetrarfærð á íslenskum vegi.
Þá sá ég að ekki er unnið að tvöföldun hringvegarins í Borgarfirði, ég hefði haldið að nýta hefði mátt hinn gamla veg sem lagður var bundnu slitlagi sem akveg framvegis fyrir þá umferð sem veita mætti í gagnstæða átt við þá umferð sem nýtir hinn nýja veg á grundvelli hægri umferðar.
5.11.2008 | 23:45
Þá geta vangavelturnar byrjað
Við höfum orðið vitni að breytingu. Í gær endaði heimurinn eins og við þekktum hann fram að því. Í dag mætti okkur nýr heimur sem við fáum að kynnast. Í kvöld er heimsendir, endir þess heims sem við höfum þekkt í dag. Á morgun er aftur ein dagur, eins og rithöfundurinn skrifaði. Á morgun bíður okkar nýr heimur. Við lifum á tímum breytinga, eins og allir hafa gert fram að þessu, þar sem enginn stígur tvisvar í sömu á.
Það er líklegast rétt að óska nýkörnum forseta þarna vestur frá allra heilla í hverju því ítarlega samstarfi sem hann kann að eiga í með Bessastaðabóndanum og Íslandi á sviði nýtingar hreinnar orku, vonandi felur hann þó sínum bestu sérfræðingum að ræða við okkar færasta og fróðasta fólk á sviði orkumála. Ég þarf ekki að óska honum til hamingju með sigurinn því hann les tæpast þetta blaður mitt.
Ég vona að fögnuður foringjanna sé ósvikinn og menn geti komið sér saman um málefni þvert á mörk ríkja hverrar þjóðar fyrir sig.
En nú byrja vangavelturnar um hverjir muni starfa með forsetanum, hverjir það verða sem þramma með honum þegar við hér fögnum þorra á ári komanda, munu keppinautar hans úr forkosningunum/prófkjörunum komast að og fá tækifæri til að leggja sín lóð á vogarskálarnar, verður fleiri en einn lýðveldissinni í stjórninni nú þegar lýðræðissinnar hafa tögl og hagldir á þingi þar vestur frá, verður stríðsherjunni stífu sem keppti við Obama þangað til í gær boðin staða í nýrri sátta stjórn? Hvaða hlutverki munu fyrrum forsetar og fyrrum forsetaframbjóðendur og flokksbræður forsetans núverandi gegna í framtíðinni, sjáum við fljótlega breytingar í starfsliði utanríkisþjónustunnar bandarísku?
Nú getur fólk velt vöngum og vænst til hvers þess sem fólk kýs. En vinsamlegast ekki eyða of mikilli orku í að velta fyrir ykkur hverjir munu takast á um forsetastólinn 2012, hvort svo sem sú orka er endurnýjanleg eða ekki, í það minnsta ekki fyrr en eftir kosningarnar 2010.
Þjóðarleiðtogar fagna Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |