19.1.2009 | 21:07
Í tilefni dagsins
Við Íslendingar þurfum einnig að láta okkur skiljast, að við megum ekki fremur en aðrar þjóðir ætla, að við getum til lengdar vænst mikils góðs af nokkurri þjóð, umfram það, sem er í réttu hlutfalli við þá þýðingu, sem við höfum fyrir hagsmuni hennar sjálfrar. Þetta er lögmál lífsins. Eftir því skulum við hegða okkur, m.a. vegna þess, að það er frumskilyrðið til að eignast þá vináttu og virðingu annarra þjóða, sem getur, þegar mest á ríður, verið verðmætari en nokkrir fjársjóðir.
Svo mælti sá landsfaðir okkar í áramótaávarpi sínu 1945, er fæddur var þennan dag árið 1892. Ætli einhverjir hérlendir hafi á einhverjum tímapunkti ef til vill misreiknað þýðingarhlutfallið. Vinátta og virðing Breta gæti verið okkur mikill fjársjóður í það minnsta í vetur. Af sama tilefni sagði sami maður
Því minni sem þjóðin er því meira á hún undir að haga svo búskap sínum, en einkum þó viðskiptunum út á við að hún með því ávinni sér virðingu annarra þjóða.
Höfum við hagað búskap okkar með þeim hætti að hægt sé að halda því fram að við hefðum getað áunnið okkur virðingu annarra þjóða? Hann bætti um betur og hélt áfram:
Að minnsta þjóð heimsins getur vel teflt velferð sinni og sjálfstæði í voða ef hún temur sér siðleysi í þeim efnum sem beinast blasa við sjónum annarra þjóða, og jafnvel snerta beinlínis hagsmuni þeirra, þ.e.a.s. meðferð utanríkismála sinna. Þetta verðum við Íslendingar að gera okkur ljóst og hætta því að ræða utanríkismálin með óvarfærni og þeim ofsa og óbilgirni sem tíðast ríkir í innanlandsmálum
Þá skiptir varla máli hvaða afstöðu fólk hefur til samstarfs við tilteknar þjóðir á vettvangi utanríkismála, heldur gilda varfærni og góðir siðir. Á laugardaginn voru aðeins færri ár frá fæðingu annars landsföðurs. Á laugardaginn var var líka nokkuð lengra síðan fræg mótmæli áttu sér stað í Reykjavík.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.