3.3.2009 | 17:58
Hroðvirknislegt virðingarleysi
Í 12. grein laga um Rannsóknanefnd umferðaslysa segir
Þegar rannsókn einstaks máls er lokið skv. 1. gr. getur rannsóknarnefnd umferðarslysa samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar telji hún tilefni til. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsökum eða sennilegum orsökum auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skal skýrslan gerð opinber svo fljótt sem verða má. Rannsóknarnefndin getur beint tilmælum til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsókn gefur tilefni til og skulu þeir sem tillögum er beint til taka tilhlýðilegt tillit til tilmælanna ef kostur er og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Rannsóknarnefndin getur að liðnum sex mánuðum frá því að tilmæli voru gefin út krafist upplýsinga um hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum.
Við skýrslugerð samkvæmt ákvæði þessu skal rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa aðilum þeim sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar kost á, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal fella úr skýrslum sínum um einstök mál skv. 2.
mgr. beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls, svo og gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, sé rannsókn opinbers máls ekki lokið nema að því leyti sem óhjákvæmilegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss.
Hverjir hafa ekki sérlega ríkra hagsmuna að gæta ef ekki fjölskylda þess/þeirra sem lenda í slysi, það að skýrsla skuli gerð opinber svo fljótt sem verða má, þýðir ekki samstundis/samdægurs og skrifum skýrslunnar er lokið, ef hagsmunatengdir aðilar hafa ekki fengið að tjá sig um drög skýrslunnar.
Í dag var gefin út skýrsla um banaslys, maka hin látna að óvörum. Maki hins látna vissi ekki af því að til stæði að gefa út þessa skýrslu hvað þá að hún yrði gerð opinber, þaðan af síður hafði makinn lesið skýrsluna. Það er mikið áfall að missa ástvin, ég held það sé engum manni holt að ýfa upp það sár sem missir ástvinar af slysförum er með opinberri birtingu sem útgáfa slíkrar skýrslu er, að ástvinunum forspurðum, óupplýstum. Friðhelgi einkalífsins er varin í stjórnarskrá. Með því að birta alþjóð skýrsluna á sama tíma og aðstandendum hins látna er gengið verulega nærri hinum stjórnarskrárvörðu réttindum.
Sagt er að eftir hálft ár frá útgáfu skýrslu skuli nefndin kanna hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum, en ekki er sagt að nefndin þurfi að gera skýrsluna opinbera innan hálfs árs frá því að slysið eigi sér stað.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:02 | Facebook
Athugasemdir
Ég er ekki viss um að þessi túlkun haldi. Þykir mér líklegra að þarna sé átt við hagsmunaðila á borð við Vegagerðina eða verktaka, þ.e. ef nefndin gagnrýnir verulega aðbúnað á slysstað.
Annars væri það varla nefndin sem á að leggja mat á við hverja rætt er. Það væru tekin af öll tvímæli ef nefndin ætti að leyfa aðstandendum að tjá sig.Enda sé ég ekki hvað aðstandendur - með fullri virðingu - bæti við skýrsluna á lokastigum hennar. Að öðru en reyna að hamla birtingu hennar.
Ef við berum þetta saman við flugslys og aðkomu Rannsóknarnefndar flugslysa. Á sú nefnd einnig að fá alla aðstandendur til að tjá sig um skýrslunar? Hvaða aðstandendur ættu það að vera? Ég efast um að slíkar skýrslur, sem eiga að hafa forvarnargildi, kæmu yfirleitt út.
En ég skil alveg hvað þú átt við. Það bara gengur ekki upp, að mínu mati.
Ólafur Haraldsson (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 18:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.