3.3.2009 | 17:58
Hroðvirknislegt virðingarleysi
Í 12. grein laga um Rannsóknanefnd umferðaslysa segir
Þegar rannsókn einstaks máls er lokið skv. 1. gr. getur rannsóknarnefnd umferðarslysa samið sérstaka skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar telji hún tilefni til. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsökum eða sennilegum orsökum auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skal skýrslan gerð opinber svo fljótt sem verða má. Rannsóknarnefndin getur beint tilmælum til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsókn gefur tilefni til og skulu þeir sem tillögum er beint til taka tilhlýðilegt tillit til tilmælanna ef kostur er og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Rannsóknarnefndin getur að liðnum sex mánuðum frá því að tilmæli voru gefin út krafist upplýsinga um hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum.
Við skýrslugerð samkvæmt ákvæði þessu skal rannsóknarnefnd umferðarslysa gefa aðilum þeim sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar kost á, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að skýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal fella úr skýrslum sínum um einstök mál skv. 2.
mgr. beina tilvísun til trúnaðargagna sem hún aflar í tengslum við rannsókn máls, svo og gagna sem aflað hefur verið hjá lögreglu, sé rannsókn opinbers máls ekki lokið nema að því leyti sem óhjákvæmilegt er talið vegna greiningar á orsökum umferðarslyss.
Hverjir hafa ekki sérlega ríkra hagsmuna að gæta ef ekki fjölskylda þess/þeirra sem lenda í slysi, það að skýrsla skuli gerð opinber svo fljótt sem verða má, þýðir ekki samstundis/samdægurs og skrifum skýrslunnar er lokið, ef hagsmunatengdir aðilar hafa ekki fengið að tjá sig um drög skýrslunnar.
Í dag var gefin út skýrsla um banaslys, maka hin látna að óvörum. Maki hins látna vissi ekki af því að til stæði að gefa út þessa skýrslu hvað þá að hún yrði gerð opinber, þaðan af síður hafði makinn lesið skýrsluna. Það er mikið áfall að missa ástvin, ég held það sé engum manni holt að ýfa upp það sár sem missir ástvinar af slysförum er með opinberri birtingu sem útgáfa slíkrar skýrslu er, að ástvinunum forspurðum, óupplýstum. Friðhelgi einkalífsins er varin í stjórnarskrá. Með því að birta alþjóð skýrsluna á sama tíma og aðstandendum hins látna er gengið verulega nærri hinum stjórnarskrárvörðu réttindum.
Sagt er að eftir hálft ár frá útgáfu skýrslu skuli nefndin kanna hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum, en ekki er sagt að nefndin þurfi að gera skýrsluna opinbera innan hálfs árs frá því að slysið eigi sér stað.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2009 | 22:09
Veröld bætt og betri
Á morgun hljótum við öll að verða vitni að undrum og stórmerkjum. Miðað við þann þunga sem í áherslum þeim sem lagðar voru á umræddar breytingar fólst má búast við því að við fáum öll hugljómun um miðnætti, samstundis og spásögnin sem hér er vísað í verður að veruleika, má ekki búast við slíkum vatnaskilum?
Útflutningur eykst til muna.
Innflutningur minnkar.
Gengi íslensku krónunnar styrkist með nýju meti í dagslækkun gengisvísitölunnar.
Vísitala neysluverðs mun standa í stað.
Skatttekjur hins opinbera verða meiri á morgun en menn reiknuðu með.
Kaupmáttur vex í samræmi við lengri dagsbirtu morgundagsins.
Verðbólgan hjaðnar fyrir sólsetur.
Atvinnuauglýsingum fjölgar.
Að hverjum má gera hróp ef ekkert breytist eftir allt þetta basl?
Búinn að staðfesta lögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.2.2009 | 12:49
Hver vill
Dótturfélag um hlutabréf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2009 | 23:30
fyrirheit
Er ekki allt á uppleið með það sama?
Styrkist ekki krónan vegna þess að framkomnar breytingar á forustu ríkisins hafa náð fram að ganga?
Er ekki betra veður vegna verkvissrar vinstristjórnar?
Aukast ekki vinsældir Íslands vegna endurskoðunar hispurslausra hvalveiða?
Berast okkur ekki bara góðar fréttir héðan í frá?
Nú er bara að bíða og sjá hvort nýja stjórnin láti ekki kraftaverkin tala. Þó að krónan hafi dalað í dag, þarf það ekki að þíða að henni hnigni í framtíðinni, að hún rýrni um 1,8% á morgun o.s.frv. dag eftir dag. Ég get ekki greint að það hafi hlýnað. Þó Íslands sé getið þá jafngildir það ekki auknum vinsældum. Við skulum bíða og sjá; hvort kraftaverkin verði látin tala.
Punxsutawney Phil spáir löngum vetri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 07:02
Brostnar vonir
Nú eru vonir forseta lýðveldisins brostnar. Forsetinn batt, á "málfundi" þriðjudagsins, vonir við að hér væri starfhæf ríkisstjórn, raunar batt forsetinn vonir við það að ný ríkisstjórn tæki við fyrir helgi. ég hefði haldið að hér gæti verið starfhæf stjórn ef oddur af oflæti væri brotinn. Ef þeim, sem eru heilir heilsu í þeirri stjórn sem baðst lausnar á mánudaginn var, rynni blóðið til skyldunnar og störfuðu saman fram á vor, kæmu sér saman um kjördag og einbeittu sér að aðgerðum fremur en ágreiningi.
Mér sýnist sem svo að það sem ekki mátti í Sjálfstæðisflokknum, megi í Samfylkingu. Utanríkisráðherra og formaður samfylkingarinnar lagðist gegn því að forusta ríkisstjórnarinnar yrði í höndum varaformanns Sjálfstæðisflokksins í forföllum formanns. Einhverra hluta vegna þótti formanni Samfylkingarinnar ekki rétt að varaformaður Samfylkingarinnar myndi leysa formanninn af hólmi meðan formaðurinn færi í veikindaorlof. Forusta ríkisstjórnarinnar mátti ekki verða bitbein í innanflokksdeilum, rétt er það en ekki var ástæða til að ætla að svo yrði í tilfelli Sjálfstæðisflokksins. En í Samfylkingunni virðist mega nota forsætisráðuneytið til að auka vegsemd ráðherra sem gæti komist nær formlegri forustu Samfylkingarinnar á framtíðar þingi þar sem allt bendir til að nýr varaformaður verði kjörinn.
Úr því að Ágústi Ólafi er, að því er virðist, ekki treyst fyrir forustu Samfylkingarinnar og Samfylkingin á þingi viðrist fylkja sér um Jóhönnu, hví getur Jóhanna ekki leyst Ingibjörgu af hólmi í utanríkisráðuneytinu meðan Ingibjörg nær fullri starfsorku. Þorgerður leysi Geir af hólmi í forsætisráðuneytinu. Aðrar mannabreytingar yrðu gerðar ef þörf þykir og þá væru þær ekki eins tvísýnar nú um stundir, þar sem nýjum viðskiptaráðherra og nýjum ráðherra í hverju því öðru ráðuneyti hvar ráðherra léti af störfum. Nýjum ráðherrum væri meiri stuðningur af því að hafa ráðherra sem eru vanir því að starfa saman sem slíkir að úrlausnarmálum þjóðarinnar. Nýir ráðherrar ættu þá líklega auðveldara með að átta sig á viðfangsefninu. Það á ekki að leggja mikla vinnu í svona formsatriði. Svona 10 manna ríkisstjórn myndi starfa fram að kosningum, þá þyrfti ekki að óttast lausatök þess sem er að setja sig inn í málin, rétt á meðan mest á ríður.
Flokkstjórnarfundi frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 21:32
það sem við þurfum?
Það er e.t.v. spurning sem má spyrja, hvort nú sé tíminn til að standa í stappi um stjórnlagabætur, hvort ekki sé nær í að vinna ötullega að framkvæmd efnahagsumbótum. Láta sínar tilfinningar ekki bera sig ofurliði heldur halda fast um þjóðaröryggi. Þá er e.t.v. best að halda sig venjur, siði og lög. Vitanlega verður varla nokkrum nokkuð úr verki við svona aðstæður nema um það ríki sátt, sérstaklega við stjórnun mála er varða samfélagið allt. Stjórnleysi leysir engan vanda. hér þarf stjórn og persónulegur ágreiningur vegur minna en þjóðarhagur. Vel skal vanda það sem lengi skal standa, fumlaus vinnubrögð eru betri en fát, það sem gert verður þarf að gera að vel yfirlögðum ráðum. Hvernig málin þróast er óvíst.
Ýmsir hafa reynt að skemmta sér í dag, einn tilnefndi Kristinn H. Gunnarsson sem forsætisráðherra þjóðstjórnar. Svo hefur verið minnst á utanþingsstjórn, hverjir ætli njóti vinsælda til slíkra starfa?
Skapa þarf samfélagslegan frið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 21:07
Í tilefni dagsins
Við Íslendingar þurfum einnig að láta okkur skiljast, að við megum ekki fremur en aðrar þjóðir ætla, að við getum til lengdar vænst mikils góðs af nokkurri þjóð, umfram það, sem er í réttu hlutfalli við þá þýðingu, sem við höfum fyrir hagsmuni hennar sjálfrar. Þetta er lögmál lífsins. Eftir því skulum við hegða okkur, m.a. vegna þess, að það er frumskilyrðið til að eignast þá vináttu og virðingu annarra þjóða, sem getur, þegar mest á ríður, verið verðmætari en nokkrir fjársjóðir.
Svo mælti sá landsfaðir okkar í áramótaávarpi sínu 1945, er fæddur var þennan dag árið 1892. Ætli einhverjir hérlendir hafi á einhverjum tímapunkti ef til vill misreiknað þýðingarhlutfallið. Vinátta og virðing Breta gæti verið okkur mikill fjársjóður í það minnsta í vetur. Af sama tilefni sagði sami maður
Því minni sem þjóðin er því meira á hún undir að haga svo búskap sínum, en einkum þó viðskiptunum út á við að hún með því ávinni sér virðingu annarra þjóða.
Höfum við hagað búskap okkar með þeim hætti að hægt sé að halda því fram að við hefðum getað áunnið okkur virðingu annarra þjóða? Hann bætti um betur og hélt áfram:
Að minnsta þjóð heimsins getur vel teflt velferð sinni og sjálfstæði í voða ef hún temur sér siðleysi í þeim efnum sem beinast blasa við sjónum annarra þjóða, og jafnvel snerta beinlínis hagsmuni þeirra, þ.e.a.s. meðferð utanríkismála sinna. Þetta verðum við Íslendingar að gera okkur ljóst og hætta því að ræða utanríkismálin með óvarfærni og þeim ofsa og óbilgirni sem tíðast ríkir í innanlandsmálum
Þá skiptir varla máli hvaða afstöðu fólk hefur til samstarfs við tilteknar þjóðir á vettvangi utanríkismála, heldur gilda varfærni og góðir siðir. Á laugardaginn voru aðeins færri ár frá fæðingu annars landsföðurs. Á laugardaginn var var líka nokkuð lengra síðan fræg mótmæli áttu sér stað í Reykjavík.
7.1.2009 | 19:28
námundun
Sú vísiltala sem lækkað, féll, lækkaði, hrundi, lækkaði, dalaði, lækkaði o.s.frv. var miðuð við 15 fyrirtæki, en þá voru líka fleiri fyrirtæki sem kepptust um fjármagn í höllinni atarna. Nú var kynnt til sögunnar ný vísitala sem miðar við 6 fyrirtæki. Kannski færist líf í leikinn á nýjan leik og Kauphöll fari menn að höndla með meira fé en nú er gert og þar verði verslað með búta úr fleiri félögum en nú er gert, hver veit nema einhvern tíman verði hægt að miða við 15 fyrirtæki í vísitölu í framtíðinni. Kannski væri nær að nýja vísitala væri kölluð Útvalsvísitalan, enda eru fyrirtækin útvalin, ekki satt?
En það breytir því ekki að þetta er svolítið sérstök námundun, Sér er nú hver námundunin segi ég:
Áður hafði vísitalan verið núllstillt í þúsund stigum
Núll er ekki neitt, í einu þúsundi eru þau í það minnsta þrjú, kannski er þetta þreföld ákvörðun til að auka líkur á nákvæmni.
-
meðan ég man, gleðilegt nýtt ár, vonandi opnaði fólk árið af varfærni. Ég er kominn norður aftur, sitt hvað síast inn.
Úrvalsvísitalan lækkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.12.2008 | 02:51
kær kveðja að sunnan
Já sumir kvíða aðrir gera allt sem þeir geta, að því er virðist, til að magna upp stressið sem fylgir jólahaldi sumstaðar, þá eru þeir og til sem láta sér fátt um finnast. Nú er klukkan að ganga eitt og ég búinn að smyrja skyrið í skálarnar, þá get ég gengið til hvílu með verkefni morgundagsins í huga. hér halda menn að Pápi Nól komi af hellunni sem bráðnar, að sögn, þarna fyrir norðan Grímsey - ([hvað ætli verði um þá kennisetningu ef norðurskautsleiðin opnast - þarf ekki að bjóða pólbúanum hæli heima á Fróni? ])- og hafa ekki hugmynd um allt það líf sem leynist í íslenskum fjöllum, en það kemur ekki að sök, ég á að hlaupa í skarðið fyrir nágranna okkar, guð einn veit hvernig það getur farið.
Annars óska ég þeim sem líta í blaðrið gleðilegra jóla.
16.12.2008 | 21:02
Jólabókin í ár eða 2009?
Gott að vita að forysta fyrirtækjanna í landinu ætlar að gefa félagsmönnum færi á að glugga í jólabókina áður en frekar verði aðhafst í áróðri. Reynt var að neyta meðan á nefinu stóð, það tækifæri sem menn töldu í óvissunni búa var annaðhvort ekki tækifæri eða rann forystunni úr greipum.
Nú þurfum við að lesa jólabókina í ár sem velflestir forkólfar stjórnbótastaglsins hafa reynt að koma fyrir á náttborðinu hjá okkur án þess þó að segja það berum orðum svo ég hafi heyrt. Vissulega þarf hver og einn sinn tíma til að lesa bókina og velta inntaki hennar fyrir sér áður en hver og einn ákveður hvort bókin sé slíkt meistaraverk að bókin geti reynst góður leiðarvísir um lífið. Til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvort við viljum bindast saman á enn formfastari hátt með flestum hinum evrópsku ríkjunum þurfum við að lesa okkur til, upplýsa okkur sjálf ef enginn annar gerir það.
- Þó ný staða Ríkisútvarpsins sé sögð styrkja það er ólíklegt að RÚV ráðist í gerð ítarlegs fræðsluefnis um þýðingu aðildar að EvrópuSamBandinu innan þess knappa tíma sem villtustu draumar Evrópusambandssólgnasta fólks landsins skammta hinum varfærnu til að gleypa við glingrinu.-
Það er hreint ekkert stundargaman að þurfa að búa við það, þegar fram í sækir, að hafa gert tilraun til þjóðernishreinsana með þeim ásetningi að ætla að drepa þjóðina úr leiðindum með slíkri lesningu og því skil ég vel að ég hafi ekki fengið bókina boðsenda í pósti frá þeim sem áfjáðastir eru í aðild að ESB. Einhver annar en ég verður að taka ákvörðun um hvort réttara sé að gera slíka atlögu að geðheilsu þjóðarinnar á íslensku eða einhverju örðu tungumáli, hvort sem greiningardeild samfylkingarinnar á samvinnuskólaslóðum hafi, sé að eða muni þýða bókina yfir á íslensku. Mörgum þykir lögfræðilestur torskilinn, þó prentað sé á þeirri tungu sem lesandanum er tamast að lesa. Ég veit ekki hvort bókin hafi verið þýdd upp á frónskatungu, en til að gæta réttlætis er tæplega hægt að krefja alla um að lesa bókina þessi jólin til að lesa og skilja og nýta þann skilning til ákvarðanatöku sem veiti okkur gæfu, jafnvel þó svo framlög til menntamála séu meiri en gengur og gerist í ríkjum sem við gjarnan berum okkur saman við. Skyldulesning er að mínu mati ekki til þess fallin að auka landsmönnum þrótt og þor þennan veturinn, sérstaklega ef bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu enn.
Ef ég hef fylgst rétt með þá var bókin gefin út 1. janúar 1958. Hún var útbúin til prentunar í Róm í mars 1957 með þessari bók lásu menn í hálfa öld að nokkru leiti hliðstæða bók sem var upprunnin í París í apríl 1951, menn glugguðu gjarnan í þá skruddu frá júlí 1952 fram í júlí 2002.
Ekki ætla ég mér að taka aðra afstöðu en ég hef haft fyrr en að lesningu Rómarsáttmálans lokinni.
SA beita sér ekki fyrir aðild Íslands að ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)